Við frumsýnum Kia e-Niro

Á laugardaginn kl. 12–16 frumsýnum við rafbílinn Kia e-Niro í nýjum húsakynnum Kia að Krókhálsi 13. Þetta er ný útgáfa af Kia Niro sem fæst nú þegar í Hybrid og Plug-in Hybrid útfærslum. Þessi nýjasta útfærsla Kia e-Niro er 100% hreinn rafbíll og hefur því engan útblástur.

Kia e-Niro er með nýrri og tæknivæddri 64 kWh lithium rafhlöðu sem skilar drægni upp á alls 455 km í blönduðum akstri og allt að 615 km í borgarakstri skv. nýjum mælingum WLTP. Rafmótorinn er 204 hestöfl og 395 Nm í togi. Bíllinn er aðeins 7,8 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km hraða.

Kia e-Niro er framhjóladrifinn eins og Niro Hybrid og Niro Plug-in Hybrid. Rafhlaðan er undir farangursrýminu sem myndar lágan þyngdarpunkt og tryggir hámarks stöðugleika og akstursánægju.

Kia e-Niro hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en hann var nýlega valinn bíll ársins hjá What Car? sem er eitt virtasta bílatímarit Bretlandseyja. Hybrid og PHEV útfærslurnar hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi og við höfum fulla trú á því að e-Niro hljóti álíka viðtökur og hann hefur gert ytra en um 200.000 e-Niro hafa selst á heimsvísu.

Sérfræðingar frá Orku náttúrunnar verða á sýningunni og kynna helstu nýjungar og hleðslubúnað fyrir rafmagnsbíla. Þá verða söluaðilar frá Hlöðu með kynningu á hleðslutækjum fyrirtækisins.

Komdu og reynsluaktu nýjum Kia e-Niro. Við tökum vel á móti þér.